Puzzled by Iceland eignast nýtt heimili hjá A4

  • A4 festi nýverið kaup á fjölskyldufyrirtækinu Puzzled by Iceland og hefur starfsemi fyrirtækjanna nú þegar verið sameinuð. Markmiðið með kaupunum er að styrkja öfluga starfsemi Puzzled by Iceland enn frekar auk þess sem fjölbreytt vörulína fyrirtækisins er góð viðbót við breitt vöruval A4.
  • Puzzled by Iceland var stofnað árið 2010 og framleiðir endingargóðar og hagkvæmar vörur sem sækja innblástur sinn í íslenska náttúru. Má þar til dæmis nefna innkaupapoka, strokka, klúta, höfuðpúða og svefngrímur auk þess sem sjálflýsandi bakpokar í ýmsum litum bættust nýverið í flóruna.
  • Vörur Puzzled by Iceland hafa notið mikilla vinsælda hjá erlendum ferðamönnum jafnt sem íslendingum og verða nú fáanlegar hjá A4 fyrir söluaðila um allt land

Réttar aðstæður fyrir vörumerkið til að blómstra

Puzzled by Iceland hefur síðustu ár verið rekið af samhentri fjölskyldu sem lagði mikla áherslu á að vörumerkið fengi heimili sem myndi hjálpa því að vaxa og dafna.
"Það var ljóst þegar við nálguðumst A4 að þau gerðu sér grein fyrir þeim ótal möguleikum sem við vitum að Puzzled by Iceland býr yfir. Okkur fannst ljóst að þarna væri um að ræða öflugan arftaka þeirrar miklu vinnu sem hefur verið lögð í fyrirtækið fram að þessu. Eftir frábært samstarf með Sólarfilmu sem dreifingaraðila undanfarin rúm tvö ár erum við reglulega glöð að sjá Puzzled by Iceland færast yfir í hendur A4 og trúum við því að vörumerkið muni halda áfram að blómstra í þeirra höndum. Við kveðjum Puzzled by Iceland með bros á vör og óskum því og nýjum eigendum alls hins besta," segir Guðrún Heimisdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Puzzled by Iceland.

Vörur Puzzled by Iceland eru góð viðbót við fjölbreytt vöruframboð A4.
“Við hjá A4 höfum í rúm 40 ár verið leiðandi á íslenskum markaði þegar kemur að skapandi vöruframboði og því fellur vörulína Puzzled by Iceland einstaklega vel að okkar starfsemi. Við hlökkum mikið til þess að halda áfram því góða starfi sem fyrri eigendur vörumerksins hafa unnið og að geta boðið viðskiptavinum og söluaðilum okkar um land allt upp á þessar einstöku vörur. Vöruþróun hefur skipað stóran sess í starfsemi Puzzled by Iceland og við ætlum að halda áfram að gera henni hátt undir höfði. Þannig mun þessi viðbót auðga okkar starfsemi til hagsbóta fyrir okkar góðu viðskiptavini,“ segir Egill Þór Sigurðsson forstjóri A4.