Lopi | A4.is

Lopi

Íslenska ullin er engu lík enda hefur íslenska sauðkindin þurft að lifa af síbreytilegt íslenskt veðurfar í gegnum aldirnar og þróað með sér einstaka eiginleika, hún hefur haldist einangruð og býr yfir fjölmörgum eiginleikum frá náttúrunnar hendi sem aðrar tegundir hafa ekki. Af þeim tæplega 400 ullartegundum sem til eru í heiminum er íslenska ullin sú eina sem hefur tvenns konar hár, tog, þ.e. löng og sterk hár, og þel, þ.e. stutt og hrokkin hár. Þelið verndar gegn kulda og togið veitir vörn gegn vatni og vindum.

Lopi er unninn úr ull og eru nokkrar gerðir af lopa: Álafosslopi, léttlopi, plötulopi og einband.

Álafosslopi er þykkur en þó ótrúlega léttur og einstaklega hlýr. Hann er tilvalinn í flíkur til útivistar, lopapeysur, húfur, vettlinga og sokka. Ráðlögð prjónastærð er 6-6,5 mm.

Léttlopi er helmingi þynnri en Álafosslopinn og flíkur úr honum eru notalegar jafnt utandyra sem innan. Ráðlögð prjónastærð er 4,5-5 mm.

Plötulopi er óspunninn þráður og því þarf að meðhöndla hann varlega svo hann slitni ekki. Það er þó hægt að skeyta slitnum þræði saman með því að nudda endana létt saman með fingrunum. Hægt er að raða grófleika plötulopans með því að prjóna með einum eða fleiri þráðum og prjónastærðin ræðst af grófleika bandsins. Plötulopinn hentar vel í t.d. hefðbundnar lopapeysur.

Einband er ekki mjög mjúkt viðkomu áður en það er þvegið en mýkist við þvott. Hægt er að nota fjölmargar prjónastærðir þegar prjónað er úr einbandi, allt frá 2-6 mm. Það hentar vel í sjöl, léttar flíkur og gataprjón og er upplagt að nota bæði einfalt og tvöfalt.