Upplýsingar fyrir byrjendur í hannyrðum | A4.is

Hvað þarf að eiga til að byrja að prjóna?

Fyrir byrjendur í prjóni getur verið yfirþyrmandi að fara inn í verslun til að kaupa garn, þar sem úrvalið af fallegu og flottu garni er mikið og af nægu að taka. Í raun þarf ekki svo margt til að byrja að prjóna en það er um að gera að byrja á einföldu verkefni og prófa sig áfram. Það eina sem þarf til að byrja er:

Garn

Garn

Val á garni veltur á því hvað á að prjóna. Þegar prjónað er eftir uppskrift er tekið fram í uppskriftinni hvers konar garn er notað og hversu mikið af því en auðvitað má nota annað garn. Mikilvægt er að velja prjónastærð sem hæfir garninu sem á að nota og mæla prjónfestu. Fátt er jafn svekkjandi og að uppgötva þegar búið er að prjóna heila flík að hún passi ekki af því að prjónfestan var ekki sú sama og í uppskriftinni. Þetta á við hvort sem verið er að nota sama garn og gefið er upp í uppskriftinni eður ei. Fyrir algjöra byrjendur í prjóni mælum við með því að prjónað sé eftir uppskrift og sama garn notað og gefið er upp í uppskriftinni. Gott er að kynna sér upplýsingar um garnið og hverjir eiginleikar þess eru. Við mælum með því að vanda valið í garni og prjónum því það getur verið auðvelt að gefast upp, sérstaklega í byrjun, ef garnið er t.d. mjög viðkvæmt og slitnar auðveldlega.

Prjónar

Prjónar

Prjónar fást úr mismunandi efni, t.d. áli, plasti, bambus og rósavið, og í mismunandi stærðum og lengdum. Því grófara sem garnið er, því stærri verða prjónarnir yfirleitt að vera en minni eftir því sem garnið er fíngerðara. Styttri prjónar henta vel í minni verkefni, t.d. þegar verið er að prjóna litla sokka, á meðan lengri prjónar henta vel t.d. þegar verið er að prjóna tusku. Hringprjónarnir eru ómissandi þegar verið er að prjóna í hring og stærri verkefni, eins og t.d. peysu. Álprjónarnir eru þessir gömlu góðu sem margir þekkja og eru alltaf jafn vinsælir. Í mörgum álprjónum er hins vegar nikkel sem fólk getur haft ofnæmi fyrir og því er rétt að hafa það í huga ef þú ert með slíkt ofnæmi. Viðarprjónar njóta sífellt meiri vinsælda og henta vel fyrir byrjendur þar sem garnið rennur síður fram af prjónunum, eins og hætta er á þegar prjónað er með álprjónum. Gripið á viðarprjónunum er jafnan gott og margir tala um, sérstaklega þeir sem prjóna fast, að þá verki lítið sem ekkert í fingurna við að prjóna með slíkum prjónum. Viðarprjónar geta þó brotnað en það þarf meira til að skemma ál- og plastprjónana.

Saumnál

Saumnál

Þú þarft saumnál til að ganga frá verkefninu þínu, ganga frá endum og jafnvel sauma niður hálsmál eða annað. Best er að nota stóra, grófa, oddlausa javanál úr málmi eða plasti. Stóru nálarnar eru með stórt auga svo auðvelt er að þræða garnið í gegn. Ábending: Garnnálar eru stærri en saumnálar svo þær týnast ekki eins auðveldlega en gott er að geyma þær á vísum stað svo ekki þurfi að leita langt yfir skammt þegar kemur að frágangi á því sem verið var að prjóna.

Heklunál

Heklunál

Stundum þarf að grípa til heklunálar við prjónaskapinn, t.d. þegar á að hekla kant á peysu. Við val á heklunál þarf að huga að stærð hennar og gerð, rétt eins og með prjónana, því stærð heklunálarinnar þarf að passa við grófleika garnsins. Heklunálin getur komið sér vel ef þú lendir í því að missa niður lykkju við prjónaskapinn og áttar þig ekki á því undir eins. Þá getur þú gripið í heklunálina til að taka upp lykkjuna og látið eins og ekkert hafi ískorist. Hún er líka tilvalin til að nota í frágang á prjóni, t.d. ef endarnir á garninu eru of stuttir til að hægt sé að þræða garnið í gegnum auga saumnálarinnar er hægt að nota heklunálina til að ná í spottana og fela þá.

Skæri

Skæri

​Til að klippa garn frá hnyklinum þegar prjónaverkefninu er lokið þarf skæri. Hægt er að kaupa sérstök föndurskæri eða einföld skólaskæri. Ef til eru hefðbundin skæri á heimilinu sem virka þá er auðvitað vel hægt að nota þau en það er hins vegar gott að hafa sérstök skæri við handavinnuna, sem geymd eru á vísum stað.

Með þessum einföldu verkfærum getur þú auðveldlega klárað fyrsta prjónaverkefnið þitt. Eftir því sem áhugi þinn á prjónaskapnum eykst muntu fljótlega sjá að það er gott að koma sér upp góðu safni af prjónum, af ýmsum stærðum og gerðum. Við hjá A4 bjóðum upp á mikið úrval af prjónum og mælum t.d. með Ergo prjónunum frá Prym sem eru ákaflega léttir, þægilegir og henta einstaklega vel fyrir prjónara sem eru með gigt. Þá hafa KnitPro prjónarnir notið mikilla vinsælda, enda léttir og góðir prjónar sem henta í öll verkefni. Einnig seljum við töskur og veski undir prjóna og fylgihluti sem auðveldar þér að hafa gott skipulag á prjónadótinu

Eitt af því sem mörgum finnst leiðinlegt við prjónaskapinn er að gera prjónfestuprufu en það borgar sig þó margfalt að leggja það á sig að gera eina slíka eins og uppskriftin segir til um. Fátt er eins leiðinlegt og að uppgötva það að flíkin passi ekki af því að prjónfestan var ekki sú sama og í uppskriftinni. Þú getur þurft að fara upp eða niður um stærð á prjónum eftir því hversu fast eða laust þú prjónar.

Nú er bara um að gera að finna sér prjónaverkefni og byrja að prjóna!