Diego - Líf mitt í Skeifunni
Mánudaginn 1. apríl, kl. 13:00-15:00, mun Diego mæta í verslun okkar í Skeifunni 17 til að kynna bók sína Líf mitt í Skeifunni. Hann mun einnig árita bókina með einni loppunni og leyfa gestum að taka af sér sjálfur með honum. Við munum bjóða upp á ískalda drykki og bakkelsi og börnin fá blöðrur með mynd af Diego. Þá verða kattaklórur og kisuleikföng til sölu.
Viðskiptavinir okkar þekkja Diego og vita hvað hann hefur fært okkur mikla gleði í Skeifunni undanfarin ár. Því er það mikill heiður að hann hafi veitt okkur einkarétt á sölu bókarinnar næstu 6 mánuði. Bókin fjallar um líf Diegos í Skeifunni og fer hann yfir víðan völl í endurminningum sínum. Allt frá því þegar hann var „no name“ köttur sem var ekki velkominn í neinar verslanir, þar til hann varð dáðasti og frægasti köttur landsins. Hann talar einnig um slysið hræðilega þar sem hann varð fyrir bíl og segir frá því í einlægni hvað í raun gerðist.
Diego lýsir bókinni sem rómantískri hasarsögu þar sem nokkrar læður koma við sögu í bland við níu líf og fjölmörg ævintýri. Auk þess prýða bókina fjölmargar myndir af Diego og vinum hans, sem bæði starfsfólk A4 og viðskiptavinir hafa tekið í gegnum árin. Þetta er bók sem enginn má láta framhjá sér fara!
Í fyrstu prentun bókarinnar eru aðeins 5000 stykki og því hvetjum við fólk til að koma snemma í verslun okkar í Skeifunni 17 og næla sér í eintak - eða tryggja sér eitt hér á vefnum. Fyrstu 100 sem panta bókina á vefnum fá óvæntan glaðning!