Fjársjóðsleit í völundarhúsi | A4.is

Fjársjóðsleit í völundarhúsi

Fjársjóðsleit í völundarhúsi

Labyrinth-spilin frá Ravensburger fást í mörgum útgáfum og hafa notið mikilla vinsælda allt frá því þau komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1986. Spilið virkar einfalt í fyrstu og getur sannarlega verið það, sérstaklega fyrir börnin, en fullorðnir geta leyft sér að gera spilið flóknara og nota meiri herkænsku til að klekkja á andstæðingunum. Ravensburger hefur framleitt ótalmargar útgáfur af spilinu sem gefnar hafa verið út víða um heim og segir allt sem segja þarf um vinsældir þess.

Nafnið Labyrinth, sem á íslensku þýðir völundarhús, hefur beina tilvísun í markmið leiksins. Leikmenn fara í gegnum völundarhús sem tekur sífelldum breytingum. Á meðan þeir feta veginn í gegnum það til að komast aftur á byrjunarreit, leita þeir að öllum dýrgripunum sem þeir þurfa að finna.

Labyrinth er klassískt fjölskylduspil, frábær þrautaleikur, spennandi en umfram allt ótrúlega skemmtilegt!

Síbreytilegt og auðlært

Síbreytilegt og auðlært

Labyrinth hefur verið gefið út í fjölmörgum útgáfum og Ravensburger er sífellt að bæta í flóruna. Labyrinth Junior er einfaldari útgáfa af spilinu, fyrir fjögurra ára og eldri, en yfirleitt er Labyrinth ætlað sjö ára og eldri og tveimur til fjórum leikmönnum.

Það sem er svo skemmtilegt við Labyrinth er að það tekur sífelldum breytingum, svo hægt er að spila það aftur og aftur án þess að fá leiða á því.

Reglurnar eru einfaldar og spilið auðlært svo það hentar öllum. Labyrinth er skemmtilegt spil og spennandi þar sem leikmaður getur ýtt reitum til og þannig gert hinum erfitt fyrir með að komast leiðar sinnar.

Auðveldar spilareglur

Auðveldar spilareglur

Spilaborðið er völundarhús með bæði föstum og hreyfanlegum reitum og þeir síðarnefndu gera það að verkum að borðið tekur sífelldum breytingum. Einn reitur verður alltaf aukareitur og er notaður til að ýta hinum reitunum til. Leikmenn eiga að fara í gegnum völundarhúsið og safna um leið ákveðnum dýrgripum og komast aftur á byrjunarreit.

Hver leikmaður kemur peðinu sínu fyrir á einum af fjórum hornreitunum. Í hverri umferð gerir viðkomandi leikmaður tvennt: Ýtir reit til með því að nota lausa reitinn og breytir þannig skipulagi leiðarinnar og hreyfir peðið sitt eftir þeim leiðum sem þá eru tengdar. Ef leikmaðurinn nær kortinu sem hann á að ná í, þ.e. markmiðinu sínu, tekur hann það og heldur svo áfram að næsta markmiði í komandi umferðum.

Sá leikmaður sigrar sem fyrstur nær að safna öllum hlutunum sem hann á að safna og komast aftur á byrjunarreit.