Fyrir skapandi líf - A4 | A4.is

Til hamingju Egilsstaðir
með nýja og endurbætta verslun A4!

 

Nýverið lukum við endurbótum á verslun okkar á Egilsstöðum sem óhætt er að segja að sé nú orðin hin glæsilegasta. Framkvæmdir tóku um sex vikur og var allt kapp lagt á að ljúka þeim hratt og örugglega svo viðskiptavinir okkar myndu verða fyrir sem minnstum óþægindum. „Við tókum því þá ákvörðun að loka versluninni í sem stystan tíma, eða þrjá daga, og kunnum viðskiptavinum okkar bestu þakkir fyrir þolinmæðina,“ segir Vala Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá A4 og ein þeirra sem hafði yfirumsjón með framkvæmdunum.

„Heba Hauksdóttir, verslunarstjóri, og starfsfólk hennar náðu með einstökum hætti að halda öllum bolti á lofti til að veita eins góða þjónustu og ávallt á meðan versluninni var algjörlega umbylt. Það sem við gerðum meðal annars var að stækka verslunina með því að taka niður veggi og stækkuðum op á milli rýma til að gera hana bjartari og opnari. Við bættum einnig við hillum og gjörbreyttum öllu skipulagi sem gerir okkur kleift að auka annars fjölbreytt og gott vöruúrval og leyfa til dæmis gjafavörunni að njóta sín betur.“

Vala segir að ákveðið hafi verið að hafa umhverfisvernd að leiðarljósi í framkvæmdunum og nýta það sem sem hægt var. „Þótt við höfum vissulega þurft að endurnýja ýmislegt nýttum við allt það sem hægt var, til dæmis hilluefni. Við urðum þó að skipta út gólfefninu sem okkur finnst gjörbreyta yfirbragði verslunarinnar og svo erum við að skipta út allri lýsingu og taka inn LED-lýsingu.“

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin í nýja og endurbætta verslun og hlökkum til að sjá ykkur!