Jafnlaunastefna

 

Markmið
 
Jafnlaunastefnan er unnin í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og er hluti af launastefnu Egilsson ehf. Jafnlaunastefnan byggist á Jafnlaunastaðli ÍST 85:2012 og er órjúfanlegur hluti af launastefnu fyrirtækisins. Forstjóri samþykkir stefnuna en mannauðsstjóri ber ábyrgð á að framfylgja henni.
 
1.gr.
Jafnlaunastefna Egilsson ehf. er samofin launastefnu fyrirtækisins og er henni ætlað að tryggja að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir. Með því er átt við þá stefnu að greiða starfsfólki jöfn laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf samkvæmt skilyrðum jafnréttislaga sem og þeim kröfum sem fram koma í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Starfsfólk skal njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. 
Laun eru í 8. tölulið 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Kjör eru í 9. tölulið 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.
 
2.gr.
Egilsson ehf. hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. 
 
3.gr.
Framkvæmdastjórar og aðrir stjórnendur skulu vera meðvitaðir um að stöðugar umbætur þurfa að eiga sér stað og að setja þurfi fram jafnlaunamarkmið og rýna jafnlaunakerfið árlega. Jafnlaunamarkmið skulu endurskoðuð út frá niðurstöðum launagreiningar. Stjórnendur skulu einnig skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.  
Mannauðsstjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfi Egilsson ehf. Hann ber einnig ábyrgð á jafnlaunastefnu og að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt, s.s. fylgni við viðeigandi lög, reglur og kjarasamninga sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta á fundi fylgni við lög. Mannauðsstjóri er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi jafnlaunakerfisins í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012.
 
4.gr.
Í kjölfar árlegrar launagreiningar, þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni, þá eru helstu niðurstöður kynntar fyrir starfsfólki og gert grein fyrir hvort til staðar sé kynbundinn launamunur og ef svo er, hvernig hann verði jafnaður. Þá er jafnlaunastefnan  aðgengileg almenningi á ytri vef fyrirtækisins. 
 
5.gr.
Frávik frá mælanlegum jafnlaunamarkmiðum skulu ekki vera umfram 5%.